20.5.2009 | 20:30
Fyrningarleiðin er réttlát
Fyrningarleiðin er réttlátari en sumir halda, í henni felst að hætta á ókeypis úthlutun verðmæta til útvalinna á 20 árum. Mörgum finnst það allt of langur tími. Ég get vel tekið undir að í einstökum tilvikum getur hún virst óréttlát. Það er t.d. í þeim tilfellum þar sem menn hafa alltaf veitt allan kvótann sem þeir fá ókeypis en þurft vegna sífellt minnkandi heildar veiðiheimilda að kaupa rándýran kvóta til viðbótar til að geta viðhaldið starfsemi sinni. En hvaða óréttlæti er það að taka af þeim þann verðmæta kvóta á 20 árum sem þeir hafa alltaf fengið ókeypis. Hins vegar er það svo að miklu fleiri ókostir eru við núverandi kerfi en kostir. Heildar veiðiheimildir hafa farið minnkandi allt frá því þetta "verndarkerfi" var sett á og stöðugt minni afli kemur að landi. Brottkastið sem kvótakerfinu fylgir er hins vegar svo mikið að eflaust er meira veitt nú en áður ef vel er að gáð.
Allt of mörg bæjarfélög standa á brauðfótum m.a. vegna núverandi kvótakerfis. Nýliðun er allt of lítil og raunar ómöguleg. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin hafa yfirtekið sjávarútveginn og lagt hann í rúst. Það kannast margir landsmenn við þær björgunaraðgerðir sem Samherji og HB- Grandi hafa stundað í gegnum tíðina. Þessi fyrirtæki fóru nánast ránshendi um sveitafélög landsins. Þau keyptu upp illa stæð fyrirtæki og fyrirtæki þar sem eigendurnir vildu hverfa burt með kvótagróðann sinn, jafnvel með loforðum um að viðhalda atvinnu í viðkomandi byggðarlagi. Ári eftir uppkaupin voru RISARNIR farnir úr sveitafélaginu með kvótann og skildu þá sem höfðu lifað af því að veiða og vinna aflann eftir allslausa. Þeir komu sjálfir þessu óorði á greinina og þeir eiga að axla ábyrgð á sínu framferði. Þeir komu einnig óorði á þá sem stunduðu sjávarútveg á heiðarlegan hátt við erfiðar aðstæður í því óréttláta kerfi sem nú er í gildi.
Það eru ekki mörg sveitafélög á Íslandi sem eru í blóma þrátt fyrir núverandi sjávarútvegsstefnu. Ég man í fljótu bragði eftir Dalvík, Akureyri, Reykjavík, Fjarðarbyggð, Ég man ekki eftir fleirum í bili og það væri gott að fá ábendingar um vel stæð sveitarfélög þar sem sjávarútvegur blómstrar vegna kvótakerfisins. Menn verða aðeins að líta út fyrir sinn rann þegar þeir dásama þetta kerfi. Hins vegar má segja, að framsalið hefur farið illa með útvegsmenn sem hafa keypt mikinn kvóta síðustu ár á fáránlegu ofurverði. Það mætti velta fyrir sér hvort þeir sem selt hafa kvóta t.d. s.l . 5 ár séu ekki skaðbótaskyldir gagnvart kaupendum kvótans. Voru þeir ekki að selja vöru sem þeir áttu ekki. Hins vegar mætti vel hugsa sér að þeir sem eingöngu eru að leigja út kvótann sinn skili honum nú þegar til ríkisins svo hægt sé að leiga hann út frá samfélaginu á sanngjörnu verði til þeirra sem eru að færa björg í bú. Síðast en ekki síst það er út í hött að kvóti geti erfst fá einni kynslóð til annarrar.
Veruleikafirrtur grátkór | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ósköp er að lesa skrif nafna míns, ég er hreinlega ósammála hverju einasta orði.
Það er rangt að flestir veiði kvótann sinn. Verulegur kvóti er leigður út og kvótaleiga er eina leiðin fyrir efnalítið fólk til að komast inn í greinina. Þá borga menn 180 kr. fyrir óveitt kíló og fá svo 250 kr. fyrir aflann. Útgerðin fær þar með ca. 40 kr. fyrir kílóið og áhöfnin 30 kr. 70% af tekjum útgerðarinnar fæst því ekki með skipum, veiðarfærum, mannskap og hugviti heldur með ókeypis úthlutuðum veiðiréttar. Og þær tekjur héldust ekki í greininni heldur varð sá auður undirstaða útrásarinnar og spillingar síðasta áratugar.
Afkoma útgerðar á 7. og 8. áratugnum var afleit enda voru þá alger gjaldeyrishöft og gengisskráningin miðaðist við það að útgerðin tórði. Ef útgerðin hefði fengið að ráðstafa gjaldeyristekjum sínum að vild og fjármagna sig í viðskiptalöndunum þá hefði útgerðin verið rekin með bullandi gróða. Á þessum tíma héldu Reykvíkingar að allir græddu á verðbólgunni. Það var ekki rétt, útgerð og fiskvinnsla borguðu verðbólgugróðann. Á 9. áratugnum var fastgengisstefna, þ.e. gengið var fast, vextir og verðlag voru frjáls. Útflutningsatvinnuvegirnir voru látnir bera 30% verðbólgu óbætta. Enda fór nánast allur útflutningur á hausinn,. Ekki vegna þess að starfsemin væri í raun óhagkvæm, heldur vegna þess að útflutningurinn þurfti að standa undir 40% vöxtum og 30% innlendri verðbólgu meðan tekjur héldust óbreyttar með föstu gengi. Undir slíku getur ekkert staðið.
Á 9. áratugnum voru tugir gamalla fjölskylduútgerða gerðar gjaldþrota og bankarnir tóku til sín veiðiréttin og rástöfuðu honum til valinna aðila. Stefna þeirra var að fækka útgerðum og koma kvótanum á færri hendur. Ekki vegna þess að það væri svo hagkvæmt heldur vegna þess að það einfaldaði bankaviðskiptin og hyglaði þeim sem bönkunum þóknaðist. Í lok 9. áratugarins var búið að ná niður verðbólgunni og þá kom raunverulegur hagnaður útgerðar á Íslandi í ljós. Aukinn hagnaður var ekki vegna framfara í útgerð heldur vegna gjörbreyttrar gengisstefnu. Enda var það svo á 10. áratugnum að þeir sem borguðu hina háu og stöðugt hækkandi kvótaleigu voru hefðbundnir vertíðarbátar, ekki stórútgerðir.
Ég nenni ekki að gagnrýna hvert orð nafna míns en bersýnilegt er að þar liggur ekki að baki samhugur með hagsmunum heildarinnar heldur undirgefni hirðmanns kvótagreifanna, lénsherra nútímans.
Sigurður Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 13:38
Sigurður (1) flestir kvótaeigendur fengu í upphafi kvótann gefist. Kvóta var úthlutað gefins eitt ár í senn, þá raunar á skip, síðan fyrirtæki. Það er búið að gera margar breytingar á kvótakerfinu í gegnum tíðina. Kvótakerfið eins og það er í dag nýtur ekki nema 20% stuðnings í landinu, 80% landsmanna eru á móti þessu kvótakerfi. Það hljóta að liggja einhverjar ástæður þar að baki m.a. nokkrar af þeim sem ég nefni í greininni minni. Ég þekki einnig náið menn sem hætt hafa sjómennsku vegna þess að þeir treystu sér ekki til að taka lengur þátt í því brottkasti sem er fylgifiskur núverandi kvótakerfis. Ég þekki einnig til svokallaðs stórfyrirtækis í sjávarútvegi sem leigir út allan sinn þorsk kvóta. Hvers vegna má ekki byrja á því að innkalla kvótann af slíkum fyrirtækjum? Setja hann á markað eða til byggðalaga og leigja hann út t.d.til eflingar nýliðunar. Mjög margir sérfræðingar í hagfræði bæði erlendir og innlendir hafa bent á að þetta kvótakerfi sé mein gallað. Fákeppni er hvorki vænleg né heilbrigð samkeppni. Það verður aldrei nein sátt um nýja fiskveiðistefnu, sú stefna sem núverandi stjórnarflokkar boða er þó vænlegri til sátta en núverandi kvótakerfi ef litið er til sátta í öllu landinu og til allra sveitafélaga. Það sem ég nefni í sambandi við það að ákveðin fyrirtæki hafi farið ránshendi um landið, er eitt dæmið um það sem frjálshyggjan leiddi af sér. Eitt sveitafélag sem ég þekki mjög vel reyndi að leita réttar síns í slíku tilfelli gagnvart fyrirtækinu. En það kom í ljós að þetta var eitt af þeim dæmum sem voru lögleg en siðlaus. Það er það sem frjálshyggjan hefur alið af sér siðaleysi sem bitnar á saklausu fólki. Ég þrái ekkert heitar en sá tími sé liðin tíð. Það býr fólk í þessu landi og það verður að lifa rétt eins og fjármagneigendur
Guðrún Katrín Árnadóttir, 21.5.2009 kl. 20:19
Kvóta er úthlutað á skip EKKI fyrirtæki.
Hvaðan í ósköpunum eru þessar 80/20 upplýsingar þínar fengnar??
Það er beinlínis rangt sem þú heldur fram um fákeppni og ég er handviss um að Gylfi Þ tæki einn snúning hvar sem hann er við svona upplýsingar. Auðvitað er algjör samkeppni það besta en fákeppni er mun hagkvæmari er ríkisúthlutun verðmæta.
"frekar þann versta en þann næst besta" sagði ein góð kona í gamla daga og ég held að það sé megi við hafa þau orð um þessa fyrningarleið.
Ég myndi ekki kalla mig jafnaðarmann í þínum sporum, er ekki kommúnisti bara sannasta lýsingin. Eru það ekki annars þeir sem eru endalaust að plögga ríkisbúskapinn?
Grétar (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 22:11
Sæll Grétar, ég viðurkenni hér og nú að ég hef alla tíð verið talin frekar vinstisinnaður jafnaðarmaður. Gylfi Þ. var aftur á móti fremur hægrisinnaður jafnaðarmaður. Það er einmitt það skemmtilega við okkur jafnaðarmenn við erum breiðfylking og það rúmast margar skoðanir og sjónarmið innan okkar raða.
Þessar tölur sem ég nefni hér eru fengnar úr skoðannakönnunum það eru margar skoðanakannanir sem staðfesta þessar tölur. Ég hef raunar á tilfinningunni að eftir því sem aðdáendur kvótakerfisins tjá sig meira í fölmiðlum þá veikist staða þeirra.
Ég er alveg viss um að neytendasamtökin geta ekki tekið undir skoðun þína í sambandi við fákeppni.
Ég verð einnig að segja að ég skil ekki tilvitnun þín í gömlu konuna ég held að þú hljótir að hafa snúið henni eitthvað við.
Í morgunblaðinu þriðjudaginn 19. maí er grein eftir Sigurð Sigurðsson " Opinn reikningur á fólkið í landinu" Í þeirri grein rekur Sigurður skuldir sjávarútvegsins , ég ráðlegg þér Gréta og þér Sigurðu 1 að lesa þessa grein. Hann útskýrir mjög vel í þeirri grein hvernig kvótabraskið er upphafið að þeim hrunadansi sem við dönsum nú.
Guðrún Katrín Árnadóttir, 22.5.2009 kl. 18:23
Að endurheimta ránsfenginn úr höndum kvótabraskara er mikilvægasta réttlætismál almennings.
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 19:16
Örlítið meira um skrif nafna míns. Þú líkir kvótaleigu á vegum samfélagsins við íbúðaleigu. Þar er mikill munur á. Á húsnæðismarkaði leigja menn út vinnuafurð sem þeir hafa byggt eða keypt af framleiðandanum, þar ríkir jafnræði og þar ræðst framboð og eftirspurn eftir markaðsaðstæðum en ekki af frjósemi og fæðuframboði hjá villtum dýrastofnum. Auk þess finnst mér nafni minn vega ómaklega að leigjendum.
Mér finnst reyndar að kvótaútleigu í núverandi kerfi megi líkja við það að leigusali leigi út eignir annarra án samráðs við eigendur og að leigjandinn fái rétt sinn til íbúðarinnar vegna þess að hann borgaði einhverjum fyrir hana. Engu skipti hvort sá sem tók við leigunni hafi átt hina leigðu eign, réttur leigjandans væri tryggður vegna þess að hann borgaði einhverjum leigugjaldið. Kvótagreifinn fær veiðirétt í eigu samfélagsins endurgjaldslaust og leigir hann út gegn 70% af aflaverðmætinu. Þjóðarbúið sem á kvótann fær ekki neitt og ræður engu um hver nýtir veiðiréttinn eða hvernig hann er nýttur.Sigurður Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 11:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.